Thursday, March 08, 2007

Hafnarfjörður v.s Alcan

ég veit ekki með ykkur, en ég vil ekki sjá þetta álver í Straumsvík.

hér eru rökin, allir að kinna sér þetta og kjósa.

Hér eru helstu ástæður fyrir því að við segjum nei við stækkun í Straumsvík:

  • Alcan í Straumsvík verður eftir stækkun stærsta álver í Evrópu og óljóst er hversu mikið fyrirtækið mun stækka til viðbótar þegar gamla verksmiðjan verður endurnýjuð.
  • Mengun frá álverinu myndi aukast verulega við stækkun og losun gróðurhúsaloftegunda myndi verða jafn mikil í Straumsvík og af öllum samgöngum á Íslandi.
  • Stækkun álversins í Straumsvík þýðir lakari loftgæði í Hafnarfirði. Mengunarlosun á sólahring verður eftir stækkun: 2.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum, 9,3 tonn af brennisteini, eitt tonn af svifryki, og 700kg af flúor. Þessi mengun skiptir Hafnfirðinga miklu máli þá 40-50 daga á ári sem vindáttin dreifir menguninni beint yfir bæinn.

  • Nú þegar liggja fyrir áætlanir einkaaðila um hafnfirska íbúabyggð fyrir vestan Straumsvík og innan tíðar verður bærinn farinn að teygja sig í vestur með ströndinni. Við teljum að risaálver eigi alls ekki heima í þéttbýli og alls ekki á framtíðarbyggingalandi Hafnarfjarðarbæjar.
    Fulltrúi Alcan lýsti því yfir á dögunum að ef ekki væri álver í Straumsvík í dag, kæmi sú staðsetning ekki til greina fyrir nýtt álver sökum staðsetningar í þéttbýli. Við erum honum sammála.
  • Stækkun í Straumsvík mun þýða verulega sjónmengun á álverslóðinni sjálfri sem verður eftir stækkun jafn breið og hún er löng í dag.
  • Verði af stækkun munu stærstu línumannvirki Íslandssögunar vera lögð ofanjarðar í gegnum útivistarsvæði Hafnfirðinga sunnan Helgafells sem og í gegnum átta sveitafélög á suðvestur- og suðurlandi. Línumannvirkin munu hafa í för með sér verulega sjónmengun í upplandi höfuðborgarsvæðisins og í sveitum landsins.
  • Alcan í Straumsvík þarf í framleiðslu sína jafn mikið rafmagn og öll höfuðborgin með allri sinni íbúa- og atvinnubyggð.
  • Samþykki Hafnfirðingar stækkun í Straumsvík munu þrjár virkjanir í Þjórsár verða settar í framkvæmd þrátt fyrir andstöðu íbúa á svæðinu. Með því að segja nei við stækkun leggja Hafnfirðingar mikilvægt lóð á vogaskálarnar til verndunar íslenskrar náttúru.
  • Þegar talað er um auknar tekjur Hafnfirðinga af álverinu við stækkun er horft fram hjá þeirri staðreynd að tekjurnar munu aukast umtalsvert án stækkunar á næstu árum. Fyrir dyrum standa skattalagabreytingar sem eru óháðar stækkun og fyrirframgreiðslur á hafnargjöldum renna út. Jafnframt hefur ekki verið reiknað út hvaða aðrar mögulegar tekjur Hafnarfjarðarbær getur haft af svæðinu ef ekki verður af stækkun. Því ber líka að halda til haga að við skattalagabreytingarnar lækka heildarútgjöld Alcan til íslensks samfélags þó svo hlutur Hafnarfjarðar aukist til muna.
  • Þegar talað er um auknar tekjur af álverinu fyrir Hafnfirðinga þarf að kynna líka hvaða áhrif þreföld stækkunar mun hafa á fasteignaverð á Völlum, í Áslandi og á Holtinu. Það hefur heldur ekki verið kynnt hvað skuldir heimilanna munu aukast mikið vegna þenslu á framkvæmdatíma og hvaða önnur ruðningsáhrif stækkunin mun hafa í Hafnarfirði á framkvæmdatímanum og í framtíðinni.
  • Það er mikill misskilningur að á krepputímum bíði störf eftir atvinnulausum Hafnfirðingum í Straumsvík. Vegna þenslu á framkvæmdatíma er ekki hægt að gera ráð fyrir atvinnulausum Hafnfirðingum sem ganga í ný störf í stækkuðu álveri. Þeir starfsmenn sem ráðnir verða annarstaðar frá í nýtt álver starfa þar áfram komi til samdráttarskeiðs í Hafnarfirði.
    Það er ánægjuefni að Alcan hefur stutt íþrótta- og æskulýðsstarf í Hafnarfirði undanfarin ár. Það er hinsvegar mikill misskilningur að án Alcan hefði íþrótta- og æskulýðsstarf í bænum þróast með öðrum hætti. Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir síðasta ár var gert ráð fyrir 1.155 milljónum til þessa málaflokks og framlag (auglýsingasamningur) Alcan á síðasta ári var 5 milljónir eða 0,4% af heildarútgjöldum bæjarins til málaflokksins. (heimild: www.hafnarfjordur.is)
  • Því hefur verið haldið fram að hvergi sé hægt að framleiða ál á eins vistvænan hátt og á Íslandi. Staðreyndin er sú að rúmlega helmingur (55%) allrar álframleiðslu í heiminum er framleiddur með endurnýjanlegum orkugjöfum og því fráleitt að halda því fram að á íslendingum hvíli einhverjar skyldur í þessum efnum. Endurnýjanlega orkugjafa eins og á Íslandi er að finna t.d. í Rússlandi, Afríku, suður- og norður Ameríku.
  • Í dag starfa 216 Hafnfirðingar i álverinu í Straumsvík, fyrirtækið er í mjög góðum rekstri og það er ekkert í kortunum sem bendir til þess að fyrirtækið fari og loki á næstu árum. Á heimasíðu Alcan segir: ,,Engar áætlanir eru uppi um lokun álversins ef ekki kemur til stækkunar, enda gengur verksmiðjan vel og árangurinn er góður, bæði á tæknilegum mælikvörðum og í umhverfismálum.” (heimild: www.alcan.is)

Það eru kaflaskil á sjóndeildarhringnum hvað varðar álver í Hafnarfirði. Ákvarðanir sem teknar voru fyrir 40 árum geta ekki verið grundvöllur fyrir þær ákvarðanir sem við tökum í dag. Við stöndum frammi fyrir nýrri ákvörðun sem hefur áhrif næstu 50 til 60 árin í bænum okkar. Við í Sól í Straumi hvetjum Hafnfirðinga til að kynna sér stækkunarmálið. Þetta er stærsta ákvörðun sem Hafnfirðingar hafa nokkru sinni tekið og snýst um framtíð bæjarins.
Sól í Straumi

tékkið á www.solistraumi.org